top of page
Search
  • Writer's pictureÁlfheiður Eva Óladóttir

Hvað er dáleiðsla?

Updated: Feb 5, 2019


Margir velta fyrir sér hvað dáleiðsla sé eiginlega? Dáleiðsla er gjarnan svipuð mikilli dulúð en í raun og veru er dáleiðsla náttúrulegt vitundarástand sem við upplifum þegar við leggjumst til svefns og þegar við vöknum upp úr svefni.


Dáleiðsla er breytt vitundarstig


Alla jafna förum við í gegnum fjögur vitundarstig á hverjum degi. Hugurinn er í beta ástandi mest allan vökutíma okkar en tíðni beta heilabylgna er hærri en 13 sveiflur á sekúndu og oft miklu hærri og getur sveiflast talsvert. Þegar hugurinn er í beta ástandi gengur okkur vel að beita rökhugsun og taka ákvarðanir. Hugurinn er í alfa vitundarástandi þegar tíðni heilabylgna er á milli 8 og 13 sveiflur á sekúndu. Í þessu vitundarástandi víkja skilin á milli meðvitundar og undirvitundar og það verður auðveldara að nálgast minningar og upplýsingar og margir upplifa að þeir séu þægilega afslappaðir. Á enn lægra sveiflustigi eru þeta eða draumstigið og delta sem er djúpsvefn og meðvitundarleysi. Hvort sem við munum drauma okkar eða ekki þurfum við að fara í gegnum þeta vitundarástandið á leiðinni inn í djúpsvefn og meðvitundarleysi.


Þegar við erum í alfa vitundarástandi erum við tæknilega séð dáleidd. Dáleiðsla hefur verið skilgreind á margan hátt í gegnum tíðina og er ein skilgreining á dáleiðslu breytt vitundarástand. Önnur skilgreining er sú að öll dáleiðsla sé í raun sjálfsdáleiðsla og hægt væri að líta á alla dáleiðslu sem leidda sjálfsdáleiðslu (Roy Hunter í bókinni Listin að dáleiða).


Dáleiðsla er því fullkomlega eðlilegt ástand sem margir upplifa sem þægilegt og slakandi og tengist á engan hátt yfirnáttúrulegum eða dulrænum aðstæðum.


Meðferðardáleiðsla


Dáleiðsla í meðferðarskyni hefur fylgt manninum lengi og getur gagnast við margvíslegum vandamálum. Meðferðardáleiðsla á enn fremur ekkert skylt við sviðsdáleiðslu en öll dáleiðsla er sjálfsdáleiðsla þar sem dáleiðsluþegi hefur stjórn á aðstæðum og er meðvitaður um allt sem fram fer í dáleiðslunni. Þannig er dáleiðari í raun eingöngu leiðsögumaður sem leiðir dáleiðsluþegann í dáleiðsluástand. Þegar meðvitundin og rökhugsunin hefur slakað á er hægt að nálgast undirvitundina. Dáleiðarinn stjórnar ekki heldur leiðbeinir dáleiðsluþeganum í gegnum dáleiðsluferlið. Valdið til að gera breytingar býr í huga dáleiðsluþegans.


Undirvitundin og breytingar


Undirvitundin geymir allar minningar og allt það sem við þekkjum og höfum lært. Undirvitundin hefur með stjórn ósjálfráðrar líkamsstarfsemi að gera. Undirvitundin geymir tilfinningar okkar, ímyndunarafl og stjórn vana.


Þar sem undirvitundin geymir allt er gjarnan talað um gömul forrit í tengslum við dáleiðslumeðferð. Sum gömul forrit eru góð og gagnast okkur vel. Við bregðumst sjálfkrafa við ýmsum áreitum í umhverfinu á þann hátt sem hefur gagnast okkur vel s.s. á stöðva á rauðu ljósi í umferðinni, bíða í biðröð og koma fram í samræmi við ákveðnar samfélagsreglur.


Önnur forrit geta sum hver verið okkur til trafla og hindrað okkur í að lifa lífinu sem besta útgáfan af okkur sjálfum. Til dæmis: "ég hef erfiða skapið hans pabba" eða "ég get ekkert í stærðfræði" eða "það sem ég geri verður að vera fullkomið" eða "þetta liggur í ættinni, allir í fjölskyldunni minni eru of feitir".


Þegar undirvitundin er full af neikvæðum og óskilvirkum forritum getur verið erfitt að gera breytingar. Í dáleiðslumeðferð eru þessi neikvæðu og óskilvirku forrit fundin. Dáleiðari aðstoðar dáleiðsluþega við að skipta út og endurskrifa gömul forrit til þess að ná fram djúpstæðum breytingum og settum markmiðum.

651 views0 comments

Recent Posts

See All

Comments


bottom of page